Sveitin

 

Stór þáttur í starfsemi okkar er þjónusta við bændur, einkum kúabændur, en einnig hrossa-, sauðfjárbændur.  Dýralæknaþjónustan var stofnuð árið 1998 og voru bændur helstu viðskiptavinir okkar fyrstu árin. Á þessum tíma hefur safnast mikil reynsla og þekking hjá dýralæknunum okkar og við höfum sótt fjölda námskeiða í sambandi við sjúkdóma og meðhöndlun þessara dýrategunda.

 Kröfur um gæði og hreinleika afurða eru sífellt að aukast og hefur sjúkdómaskráning, fyrirbyggjandi aðgerðir og eftirfylgni  orðið meira áberandi í starfi dýralækna.  Við erum með blóðgreiningartæki fyrir stórdýr og einnig möguleika á myndgreiningu með röntgen tæki sem við getum komið með á staðinn. Einnig erum við með fullkomin ómskoðunartæki til skoðunar og greingar á frjósemisvandamálum hjá  kúm og hryssum.

Símatími er frá 8:30-9:30 virka daga, en utan þess tíma eru upplýsingar um símanúmer dýralækna í síma 4614950.

 

 


 

Sauðfé

Bólusetning sauðfjár  

Á markaði eru tvö bóluefni til þess að fyrirbyggja helstu sjúkdóma í unglömbum.  Þau eru:

Blandað bóluefni sem inniheldur þætti til varnar lambablóðsótt, flosnýrnaveiki/ garnapest og bráðapest  og Lambivac sem inniheldur þætti til varnar lambablóðsótt, flosnýrnaveiki/garnapest og stífkrampa. Blandaða bóluefnið er íslenskt, hefur stuttan virknistíma og bólusett er með því 2 sinnum árlega þ.e. 6 vikum fyrir burð og aftur 2 vikum fyrir burð.  Lambivac er breskt bóluefni, hefur lengri virknistíma en blandaða bóluefnið og þarf einungis að bólusetja með því einu sinni á ári eftir grunnbólusetningu. 

Grunnbólusetningin (fyrsta bólusetning með Lambivac) fer þannig fram að bólusett er 2 sinnum með 6 vikna millibili og seinni bólusetningin 4-6 vikum fyrir burð.  Þetta þýðir að fyrri bólusetningin þarf að fara fram í febrúar-mánuði ef sauðburður er í mai.

Eftir þessa grunnbólusetningu fyrsta árið þarf einungis að bólusetja féð einu sinni að vori, 6 vikum fyrir burð.  Athuga ber þó að lömbin/gemlingana þarf að grunnbólusetja þar sem þau hafa ekki verið bólusett áður og þarf því að sprauta þau fyrri bólusetningu í febrúar og síðan seinni bólusetninguna um leið og fullorðna féð.  Á þeim stöðum þar sem garnapest hefur verið vandamál á haustin er mjög sniðugt að grunnbólusetja ásetningslömbin að hausti.  Þá nær maður að verja þau fyrir garnapestinni sem er einna skæðust á haustbeitinni og er um leið búinn að losna við bólusetningu í febrúar, sem vill gleymast þar sem menn eru ekki vanir að bólusetja á þeim tíma.  Síðan eru lömbin/gemlingarnir bólusettir seinni bólusetningu um leið og fullorðna féð 6 vikum fyrir burð.