Fróðleikur

Sauðfé

 

Bólusetning sauðfjár  

Garnaveikibólusetning.

Á okkar starfsvæði er garnaveikibólusetning af líflömbum skylda, en garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur sem leggst á öll jórturdýr og veldur bólgu í görnum. Helstu einkenni eru hægfara vanþrif og skituköst. Dýralæknar sjá um bólusetningu við garnaveiki og skal henni lokið fyrir áramót.

Best er að láta bólusetja ásetningslömbin sem fyrst á haustin, eða fljotlega eftir að tekið er inn. Eftir bólusetninguna kemur svokölluð "bóla" á bólusetningarstaðinn. Stöku sinnum geta lömbin veikst eftir bólusetninguna og er því nauðsynlegt að fylgjast með þeim næstu daga eftir sprautuna.

 

Bólusetning við lambablóðsótt, garnapest og bráðapest.

Á markaði eru tvö bóluefni til þess að fyrirbyggja helstu sjúkdóma í unglömbum.  Þau eru:

Blandað bóluefni sem inniheldur þætti til varnar lambablóðsótt, flosnýrnaveiki/ garnapest og bráðapest  og Lambivac sem inniheldur þætti til varnar lambablóðsótt, flosnýrnaveiki/garnapest og stífkrampa. Blandaða bóluefnið er íslenskt, hefur stuttan virknistíma og bólusett er með því 2 sinnum árlega þ.e. 6 vikum fyrir burð og aftur 2 vikum fyrir burð.  Lambivac er breskt bóluefni, hefur lengri virknistíma en blandaða bóluefnið og þarf einungis að bólusetja með því einu sinni á ári eftir grunnbólusetningu. 

Grunnbólusetningin (fyrsta bólusetning með Lambivac) fer þannig fram að bólusett er 2 sinnum með 6 vikna millibili og seinni bólusetningin 4-6 vikum fyrir burð.  Þetta þýðir að fyrri bólusetningin þarf að fara fram í febrúar-mánuði ef sauðburður er í mai.

Eftir þessa grunnbólusetningu fyrsta árið þarf einungis að bólusetja féð einu sinni að vori, 6 vikum fyrir burð.  Athuga ber þó að lömbin/gemlingana þarf að grunnbólusetja þar sem þau hafa ekki verið bólusett áður og þarf því að sprauta þau fyrri bólusetningu í febrúar og síðan seinni bólusetninguna um leið og fullorðna féð.  Á þeim stöðum þar sem garnapest hefur verið vandamál á haustin er mjög sniðugt að grunnbólusetja ásetningslömbin að hausti.  Þá nær maður að verja þau fyrir garnapestinni sem er einna skæðust á haustbeitinni og er um leið búinn að losna við bólusetningu í febrúar, sem vill gleymast þar sem menn eru ekki vanir að bólusetja á þeim tíma.  Síðan eru lömbin/gemlingarnir bólusettir seinni bólusetningu um leið og fullorðna féð 6 vikum fyrir burð.